Sunnudagsspjallið – Ína Högna

Íslensk náttúra er geysilega falleg og ekki skemmir fyrir að geta nýtt hana til þess að skreyta heimilið. Ég rakst á unga listakonu fyrir nokkru síðan á facebook og hef verið að fylgjast með henni og verkum hennar síðan þá en hún sameinar akkúrat tvö af mínum áhugamálum; Ísland og heimilispunt!

Ína Högnadóttir er alin upp á Álftanesi þar sem hún segir vera stutt í fallega náttúru. Í dag er hún búsett í Mosfellsbæ og segist hún einnig sjá þar fallegt myndefni, hvert sem hún lítur. Ína er menntuð í Grafískri miðlun og útskrifast í vor úr ljósmyndanámi. Áhuginn á ljósmyndun hefur alltaf verið til staðar og þegar hún var aðeins tólf ára fetaði hún sín fyrstu skref með litla filmuvél og fór árið eftir á sitt fyrsta námskeið í ljósmyndun.

Við finnum öll okkar ró í einhverju, hugleiðsla okkar getur komið úr hvaða átt sem er en Ína hefur fundið sína í ljósmynduninni. Gott þykir henni að skreppa út, taka nokkrar myndir, vinna þær síðan og skapa úr þeim sína list. Það er því tvímælalaust gaman þegar útkoman vekur áhuga annarra. Innblástur verkanna kemur helst úr formum í náttúrunni þó auðvitað eitthvað komi af internetinu sem og umhverfinu í kringum okkur. Ína notar svo formin til þess að brjóta upp hið hefðbundna ferhyrnda form mynda.

 

Þegar Ína var svo í leit að hinni fullkomnu innflutningsgjöf handa vinkonu sinni datt henni í hug að gefa henni eitthvað fallegt til að hafa uppi á vegg. Venjuleg ljósmynd var þó ekki nógu góð hugmynd svo úr varð að skeyta saman ljósmyndum og formum. Útkoman vakti svo mikla athygli sem fékk Ínu til þess að hanna fleiri myndir og virkja þannig enn frekar áhuga sinn á ljósmyndun og hönnun.

Úr þessu varð svo Ína Högna- My art. Vörumerkið er hliðarverkefni enn sem komið er en heldur þó áfram að stækka með hverri  pantaðri mynd og einnig er hægt að sérpanta myndir. Verslunin Punt og prent hefur hafið sölu á verknum svo það má segja að hjólin séu farin að snúast. Flestir viðskiptavinirnir eru Íslendingar en verkin hennar hafa þó líka verið send til að mynda til Danmerkur, Noregs og Spánar. Enda mörg af hennar verkum tilvalin rammíslensk gjöf.

Sjálf hafði ég séð verk Ínu og fylgst með facebook síðu hennar eins og segir hér í upphafi en þegar ég sá myndina af eggjunum þá kolféll ég! Aðspurð segir hún jafnframt að Eggin séu skemmtilegasta verkið sem hún hafi gert, litirnir og mynstrin séu svo einstök og hafi komið svo skemmtilega út. Vinsælasta verkið hennar er þó Hrúturinn enda virkilega fallegur.

Hér er má svo sjá nokkur af verkum Ínu:

Þangað til næst <3

 

Facebook Comments