Jólagjafaþema fyrir gamla settið

Ég byrjaði á því að skrifa “ég er rosalega mikið jólabarn” en strokaði það svo út því það er kannski ekki alveg rétt. Ég er svona sambland af jólabarni og Grinch. Ég vil ekki heyra jólalög í október, ég tek skrautið helst niður milli jóla og nýárs og ég hata engan lit meira en rauðan! En ég dett í góðan gír í desember. 

Ég tók upp á því eitt árið að gefa foreldrum mínum gjafir í stíl eða hafði ákveðið þema. Næstu jól á eftir var ég svo spurð af þeim báðum vandræðalega spenntum hvort það væri aftur þema í ár. Síðan þá hef ég reynt að hafa eitthvert þema eða gjafirnar þeirra á einhvern hátt í stíl.

Eitt árið var kósý þema, þá gaf ég þeim númeraða pakka. Fyrst voru það hlýir sokkar, næst náttbuxur, svo sitthvor koddinn, síðan stórar jólakrúsir og svo loks einn stór pakki fyrir þau saman sem var kaffigjafakarfa frá Te og kaffi.

Ein jólin var ég svo með praktískt þema, þá gaf ég þeim hluti sem ég vissi að lentu alltaf aftast á forgangslistanum þegar farið var að kaupa föt. Oftast fer fólk og kaupir sér nýjan jakka, nýjar buxur eða nýja skó. Yfirleitt eru það hlutir eins og sokkar, nærbuxur og fyrir konurnar svartar leggingsbuxur, innanundir hlýrabolurinn, einlita gollan og þetta sem við erum í raun alltaf að nota VIÐ fötin sem við svo kaupum okkur. Þessir hlutir eiga það til að vera skiljanlega orðnir slitnir og farnir að láta á sjá en einhvern veginn er ekki í forgangi að kaupa slíkt. Hver pakki innihélt því eitthvað af þessu sem ég taldi upp.

Eitthvert árið gaf ég þeim svo eitthvað sem hafði vantað lengi og alltaf verið kvartað yfir en einhvern veginn samt aldrei keypt, þetta voru hárblásari fyrir mömmu, man ekki hvað pabbi fékk og svo samlokugrill fyrir heimilið (svo ég gæti grillað mér almennilega samloku þegar ég kæmi næst!)

Ég er svo búin að ákveða þemað í ár og kannski segi ykkur betur frá því næst!

Semí-jóla-Selma kveður að sinni!

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *