Hvað segiru gott?

 

Hvað segiru gott?

Við fáum aldrei alvöru svar við þessu, ekki einu sinni þó það sé foreldri eða besti vinur sem spyr, að minnsta kosti sjaldnast. Það vill enginn vera týpan sem hefur það alltaf skítt. Þú vilt ekki þreyta aðra með þínum vandamálum, margir hafa það verra en þú, börn eru að deyja í Afríku, fólk á ástvini með krabbamein og sumir eiga börn í harðri fíkniefnaneyslu. Þarna situr þú bara með Omaggio vasann þinn, á fína heimilinu þínu með heilbrigðu börnin þín með bullandi samviskubit yfir því að líða illa.

Mér hefur liðið illa, en vangaveltur mínar snúa aðallega að því hvenær mér má líða illa. Sko hvenær vikunnar og sólarhringsins. Er ég sú eina sem líður alltaf verst þegar það er lokað á bráðamóttöku geðdeildar. Einu sinni hélt ég að ég væri svo ‘heppin’ að líða sem allra verst rétt um átta á mánu- eða þriðjudagsmorgni. Yndisleg vinkona mín brunaði með mig niður á geðdeild. Bara tíminn sem fór í að finna bílastæði var nóg til þess að einhverjir hefðu endanlega gefist upp. Já það þarf oft ekki neitt til þess að punkturinn hlammi sér ofan á i-ið. Eftir svona hálftíma (ókei korter) af leit fundum við stæði og þrumuðum okkur inn… nei nei það opnar ekki fyrr en eftir nokkra klukkutíma, ég fór aftur heim. 

Mér líður yfirleitt verst á kvöldin og þá sérstaklega um helgar. Þá er ekkert í boði annað en að fara niður á bráðamóttöku Landspítalans, þar sem þú færð bullandi samviskubit yfir að vera að troða þér inn um fólk sem er bráðveikt eða nýbúið að lenda í bílslysi eða grætur á göngunum af líkamlegum kvölum. Svo þarftu að bíða í marga klukkutíma.

Stundum þurfum við (þetta veika fólk) bara að fá að tala við einhvern hlutlausan, stundum veitir það manni ákveðið öryggi ef viðkomandi er í eða hefur stundað nám sem tengjast andlegum veikindum fólks,  eða hefur unnið við slíkt í lengri tíma.

Er til of mikils ætlast að fá að tala við fagaðila þegar þú sérð ekki fram á neina lausn í lífinu, verður það að gerast með ákveðnum hætti, á ákveðnum degi og innan ákveðins tíma?

Ég funkera því miður bara yfirleitt best á þessum tíma sem maður má vera sem veikastur.

Getum við breytt þessu?

Ég má alveg vera veik og líða illa á sunnudagskvöldum klukkan hálf tólf!

Þangað til næst <3

 

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *