Ég ætla að hafa mitt barn á brjósti

Mig langar til þess að segja frá minni reynslu af brjóstagjöf. Þegar ég var ólétt, og áður, hafði ég heyrt háværar raddir tala um það að konur ættu ekki að pína sig í brjóstagjöf fyrir einhvern annan. Þær væru alls ekkert síðri mæður þótt börnin þeirra væru á pela og oft væru konur orðnar andlega gjaldþrota í erfiðri brjóstagjöf, sem þær fundu samfélagslega kröfu um að sinna því annars væru þær ekki að standa sig nægilega vel.

Þessu var ég fyllilega sammála og tók þá ákvörðun að ef mér fyndist þetta of erfitt þá ætlaði ég ekki að láta einhverja aðra skóla mig til um mikilvægi þess að barnið mitt væri á brjósti. Ég vildi hafa barnið mitt á brjósti en ekki ef mér fyndist það of erfitt, vont eða á einhvern hátt mér ofviða.

Screen Shot 2018-02-22 at 22.55.26

Ég er mjög félagslynd en þegar kemur að því að mæta á einhverja hittinga með ókunnugu fólki þá segi ég pass og dreg mig til hlés. Ég gat því ekki með nokkru móti fengið mig til þess að skrá mig á neitt námskeið á meðgöngunni. Ég ætlaði bara að ræða þetta við mæður sem ég þekkti og fá ráð hjá þeim og þær sem ég þekkti höfðu fæstar farið á námskeið, hvorki í brjóstagjöf né undirbúning fyrir komu barnsins eða neitt slíkt. En ég sé stórlega eftir að hafa ekki farið á brjóstagjafarnámskeiðið! Mér var sagt að þær kenndu manni nú grundvallaratriðin uppi á fæðingardeild og mömmu gekk vel með okkur systur á brjósti og mjólkaði vel og lengi.

Þegar sonur minn fæddist kom í fyrstu engin mjólk svo hann fékk NAN á fæðingardeildinni ásamt því að þær hjálpuðu mér í örfá skipti að leggja hann á brjóstið. Hann var lítill og mér fannst þær brussulegar, mér fannst ég alveg geta fundið út úr þessu. Strax á fyrsta sólarhring sendi ein ljósmóðirin pabbann út í apótek að kaupa mexíkanahatt, sem ég hafði heyrt að hjálpaði sumum mæðrum.

Screen Shot 2018-02-22 at 22.54.32

Ég reyndi allt! Ég keypti töflur, ég leigði dælu, ég pumpaði mig stanslaust allan sólarhringinn, ég drakk malt, ég drakk bjór, ég drakk mjólkuraukandi te, ég gerði bókstaflega allt sem ég heyrði að gæti hjálpað. Á endanum leitaði ég til brjóstagjafarráðgjafa. Hún lét mig fá prógramm til að mjólka mig. Á endanum stóð ég svo frammi fyrir þeirri staðreynd að barnið mitt vildi ekki sjá brjóstið, vildi bara pela sem kæmi nægilega mikið úr. Brjóstin mín framleiddu ekki meir, þessi brjóst mín sem ég hélt að myndu loks koma að góðum notum, þau brugðust mér algerlega. Enda skiptir stærð brjóstanna engu máli þegar kemur að mjólkurframleiðslu. Ég var bara svo viss um að þetta yrði ekkert mál.

Screen Shot 2018-02-22 at 22.54.48

Það var ekki þannig að þetta væri orðið of mikil kvöð fyrir mig, það var einfaldlega þannig að þó svo að ég væri tilbúin til þess að gera allt, þá var ekki í boði fyrir mig að gefa brjóst. Það var eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug að gæti komið fyrir mig. Ég var bara undir það búin að hætta því ef mér fyndist það vera vandamál. Það er ótrúlega erfitt að sætta sig við að geta ekki gefið barninu sínu brjóst þegar maður er staðráðinn í að hafa það á brjósti. Það er virkilega erfitt. Eginlega ótrúlegt hvað þetta tekur á sálina, ég á erfitt með að samgleðjast eða horfa á aðrar konur gefa barni sínu brjóst. Mér finnst ósanngjarnt að þær geti gert það en ekki ég. Það lagast þó með tímanum og það er auðvitað fyrir öllu að barninu mínu líður vel og það er ekki vannært.

Ég vildi að ég hefði farið á námskeið, ég vildi að ég hefði verið meðvituð um hvernig þetta virkar allt saman, hefði verið ófeimin við að reyna og gefa þessu nægan tíma í upphafi. Ég vildi að ég hefði gert allt rétt frá upphafi og þetta hefði gengið upp. Þess vegna langar mig að hvetja aðrar konur til þess að vera ófeimnar að fá ráðgjöf strax, á meðgöngunni, þegar barnið er fætt og ef þið eruð ekki sáttar við það sem ykkur er sagt á fæðingardeildinni, leitið þá annað. En umfram allt, hafið það á bak við eyrað líka og verið undir það búnar að kannski fáið þið ekki tækifæri til þess að gefa barninu ykkar brjóst þó svo að ég óski engri móður að vera með slaka mjólkurframleiðslu eins og staðreyndin var hjá mér.

Screen Shot 2018-02-22 at 22.52.33

Kannski gerði ég allt rétt og kannski var þessu ekki ætlað að verða, ég veit það ekki en ég get ekki að því gert að hugsa til þess ef þetta hefði gengið smurt í upphafi, ef framleiðslan hefði orðið meiri hefði þetta kannski getað gengið. Það er þó ekkert að því að hafa barnið sitt á pela og sonur minn braggast vel og það er fyrir öllu!

Þangað til næst <3

Undirskrift

 

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *