“Æi þú mátt bara ráða..”

Fyrir utan daglega röflið um hvað eigi að vera í matinn þá er þetta líka ‘útaðborðavandamál’ en stundum kemur það fyrir að við heimilisfólkið förum út að borða, með eða án barna. Hvorugur aðilinn er með hugmynd og þetta endar yfirleitt á því að við segjum í kór “æi þú mátt bara ráða”.

Ég er alltaf að sjá nýja og flotta veitingastaði sem ég hugsa með mér að sniðugt væri að prufa næst en svo þegar kemur að þessu er ég alltaf búin að steingleyma þessum hugmyndum. Að þessu sögðu langar mig að lista upp nokkra veitingastaði, af öllum toga og vona að einhver geti fengið hugmynd sem er að tengja við ‘hvaðerímatinnvandamálið’.

 

Box – Reykjavík Streetfood

 

 

7. júní síðastliðinn opnaði Reykjavík Streetfood eins konar HM torg í Skeifunni. Þetta er örlítið svipað og ef Stjörnutorg væri undir berum himni. Þarna er hægt að fá mat frá mismunandi aðilum og hver matseðillinn öðrum girnilegri. Mér skilst að þarna eigi svo að vera hægt að horfa á HM í sumar en þetta verkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg og Reiti er opið fram í júlí. Ég kíkti þarna við um daginn og fékk mér bernesborgara, nachos og kók í hádeginu á sunnudegi en það sem var dásamlegast við þetta var að við snæddum inni í strætisvagni. Ég mæli með því að fólk líti við í Box í Skeifunni í sumar.

 

Kopar 

 

 

Dásamlegur staður við höfnina með fallegu útsýni, sérstaklega fyrir sjávarplásshjörtu eins og mín.
Mat- og vínseðlar vandaðir og vel upp settir (kv. málfræðingurinn) og þá sérstaklega er kokteilaseðillinn skemmtilegur. Verðið er sanngjarnt, staðurinn er í fínni kantinum en þú getur alveg leyft þér án þess að fara á hausinn.

 

Ítalía

 

 

Gamla góða Ítalía klikkar aldrei, eða sjaldan allavega. Þarna færðu svo gott pasta og pizzur. Staðurinn er kannski ekki fyrir fólk með innilokunarkennd. En þegar þú labbar þarna inn ertu algerlega komin/n til Ítalíu (segi ég sem hef aldrei farið þangað samt) og það er einhver sérstök stemmning við að fara þarna. Passaðu bara að hafa nægan tíma til að finna stæði.

 

Mathús Garðabæjar

 

 

Ég er bröns-sjúk, ég vek heimilismeðlimi yfirleitt allar helgar með suði um að fara í bröns eitthvert. Mér finnst samt fátt jafn svekkjandi og að fá 2 sneiðar af beikoni, hálfa ristabrauðsneið og tvo tómata á disk og kalla það bröns. Þið vitið þegar maður er erlendis og fer niður á hótelinu í morgunmatinn, þar sem allt flæðir og þú hefur ekki nóg pláss á disknum til að velja allt sem þig langar í, þannig á bröns að vera og þannig er hann á Mathúsi Garðabæjar, þú þarft að fara nokkrar ferðir og þú ferð ekki svangur/svöng þaðan út, ég lofa! Svo eru þeir með steikarhlaðborð á sunnudagskvöldum og það er vitaskuld á dagskrá að prufa það næst. – Mundu bara að panta borð, það komast færri að í brönsinn en vilja.

 

Hereford 

 

 

Alltaf labba ég sátt og pakksödd þaðan út, stundum of södd. Humarinn þarna er eitthvað sem ég þráði svo mikið og vissi ekki hversu langt yrði í næsta stopp þarna að ég dreif mig þangað komin 38 vikur á leið til þess að eiga síðasta deitið með sambýlismanninum áður en við yrðum þrjú á heimilinu. Þjónarnir stjana við þig og þjónustan er mjög persónuleg. Það er alltaf fast í mér að það sé svo dýrt að borða þarna en það þarf alls ekki að vera það og yfirleitt er það ódýrara en mig minnti.

 

Sukho Thai

 

 

Leynd perla í Hamraborg en alls ekki dubba þig upp í sparifötin. Þetta er ósköp venjulegur asískur veitingastaður við hliðina á Subway í Hamraborg og alls ekki neitt spari. Aftur á móti myndi ég klæða mig í spariföt alla daga bara fyrir kjúkling í Massaman þarna! Ekki láta útlitið blekkja þig, maturinn þarna er aðalatriðið.

 

Hamborgarafabrikkan

 

 

Já ég fer vandræðalega oft á Fabrikkuna. Stundum langar mig bara ekki að elda eða ég gleymdi að taka úr frystinum, þá er voða þægilegt að skella sér í einn Surfnturf á Fabrikkunni. Börnin elska það og allir sáttir, ef þú átt afmæli færðu meira að segja óskalag. Þetta er yfirleitt fínasta lausn þegar á að fara út að borða með barnaskarann meðferðis og þú ert kannski ekki beint á leið á rómantískt deit og með næturpössun.

 

Fjöruborðið

 

 

Það rómantískasta sem ég hef farið (samt er ég alls ekkert rómantísk í mér). Að taka rúnt á Stokkseyri, klæða sig upp, hafa nægan tíma og njóta samvista við vin eða ástvin á leiðinni með góðu spjalli. Humarinn þarna já, það þarf ekkert að hafa frekari orð um hann og ef þér finnst hann vondur máttu endilega senda mér línu.

 

Hornið 

 

 

Síðast en svo alls ekki síst er minn uppáhaldsstaður af öllum stöðum heims, ókei ég er kannski smá hlutdræg þar sem ég ólst þarna upp en Hornið er alltaf eins. Þarna getur þú fengið alls konar mat á sanngjörnu verði, ég hef farið þangað á joggingbuxum (mæli samt ekki með að þú gerir það)  og í sparikjól á jah all flestum afmælisdögum. Ef ég mætti alltaf ráða og mætti alltaf velja það sama þá yrði þessi staður án efa alltaf valinn, ég fer bara á hina því að sambýlismaðurinn vill stundum að við förum eitthvað annað. Sjávarréttasúpan, pastað, pizzurnar já það er alveg ástæða fyrir því að fyrir ofan pizzabakarann hangir Ólympíuviðurkenning! Ef þú hefur ekki prufað þá er kominn tími til !

 

Þangað til næst <3

 

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *