LOKSINS húseigendur!

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum sem er með mig á facebook eða snapchat að við Tryggvi vorum að kaupa okkar fyrsta hús núna í byrjun apríl og fengum afhent 30 apríl síðastliðinn. Þetta var sannkallaður draumur að rætast fyrir okkur en eins og flestir vita líka þá höfum við búið hjá mömmu og pabba mínum síðan í september í fyrra. Elska foreldra mína og er svo svo svo þakklát fyrir allt sem þau hafa gert fyrir okkur – en allir þurfa sitt pláss, líka þau!

Ég veit hvað þið eruð að hugsa sem þekkið mig – ég bjóst heldur aldrei við því að ég myndi enda með því að kaupa HÚS í Mývatnssveit! En tímarnir breytast og mennirnir með og við Tryggvi erum ólýsanlega spennt fyrir því að ala upp börnin hér og eyða ævinni saman í litla krúttlega húsinu okkar.

Þetta er ótrúlega fallegt 113fm einbýlishús með stórum garði. Það eru 3 svefnherbergi, stórt þvottahús (HAAALLELUJAH!) og geymsla, 2 klósett, forstofa, rúmgott eldhús og stofa með risastórum gluggum. Það er líka eitt aukaherbergi sem er ekki hurð á (var aldrei gert ráð fyrir hurð þar, svo þetta er bara eins og hol) en við munum á endanum rífa þá veggi niður og stækka stofuna, þangað til það verður gert verður þetta bara tölvuherbergi.

Húsið var byggt 1978 og hefur ekki mikið verið gert fyrir það síðustu 12-15 árin svo það verður nóg að gera hjá okkur, og ekki bara inní húsinu – við þurfum líka að taka það allgjörlega í gegn að utan.

Við erum nú þegar búin að rífa parketið af stofunni og mála smá en það var raki í húsinu og þá aðallega í stofunni og einu svefnherbergi sem við þurftum að komast fyrir. Næstu skref er að sparsla allt og klára að mála veggi og innréttingar og græja það sem við þurfum til að flytja inn. Elskulegur pabbi minn er svo búinn að vera að vinna í að koma öllu “tæknilegu” í stand eins og laga allar leiðslur og svona sem ég hef ekki kunnáttuna í að laga.

Þið bara vitið ekki hvað ég er spennt að sjá Hólmgeir labba inní herbergið sitt í fyrsta skipti eftir að við erum búin að græja allt, eða sjá hann hlaupa útí garð þar sem allur bílaflotinn hans og sandkassinn verður. Þetta snýst um svo miklu stærri hluti en að eiga hús. Þetta verður húsið sem dóttir okkar byrjar að labba í, þetta verður hús fullt af fallegum minningum, hlátursköstum (og öskurköstum, við eigum mjög ákveðin börn) og dögurðum með fjölskyldunni og bara eintómri hamingju.

Þetta verður heimilið okkar.

Læt fylgja með nokkrar “fyrir” myndir.

20170430_162332Hulda og Tryggvi í stofunni áður en við rifum parketið af.

20170507_181407Gangurinn en hann á mikið eftir að breytast!

20170430_183827Eldhúsið, eins og þið sjáið er ofninn temmilega ónýtur og þurfum við að skipta um hann sem fyrst.

20170507_181401

20170507_181344Og hér er stofan eftir að við rifum parketið og kláruðum að sparsla allt.

Fyrir á sem vilja fylgjast með ferlinu er ég á snapchat; iingibjorg og á laugardögum er ég með Öskubuskusnappið; oskubuska.is og verð að sýna frá því sem við bröllum í sumar í húsinu – rétt að segja frá því samt að það gerist ekkert allt í einu. Við erum rosalega mikið að vinna eftir því hvað fjárhagurinn leyfir hverju sinni svo það verður mikið af allskonar DIY og ódýrum leiðum í þessu öllu.

Þangað til næst!

Ingibjörg.jpg

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *