Stóra brúðkaupsfærslan!

Þann 11. ágúst sl. gengum við Halldór loksins í það heilaga, eftir 19 ára bið! Dagurinn var vægast sagt magnaður frá upphafi til enda, gekk eins og í sögu og er án efa einn skemmtilegasti dagur sem ég hef upplifað.

Ég byrjaði að plana brúðkaupið okkar fyrir einu og hálfu ári síðan. Fyrstu skrefin voru að ákveða dag, panta kirkju, prest, sal, söngvara og ljósmyndara. Eftir að það var klárt róaðist undirbúningurinn aðeins og það var eiginlega ekki fyrr en í janúar/febrúar á þessu ári sem að allt fór á fullt aftur, en þá byrjaði smáatriða vinnan. Það má eiginlega segja að ég sé búin að vera heilaþvegin af brúðkaupshugmyndum síðan í apríl 2017!

Eins og einhverjir hafa tekið eftir þá er ég einkar skipulögð og tel ég það skapa góðan þátt í hvað allt gekk smurt fyrir sig, sem og öll hjálpin sem við fengum. Það er alveg ótrúlegt að finna hvað maður á mikið af frábæru og hjálpsömu fólki í kringum sig.

Mig langar að fara aðeins í gegnum daginn, sýna ykkur í máli og myndum frá þessum merka degi <3Dagurinn:

Athöfnin fór fram í Hallgrímskirkju kl. 15:00 laugardaginn 11. ágúst, en Hallgrímskirkja varð fyrir valinu þar sem að mig hefur alltaf dreymt um að gifta mig þar. Amma mín og afi bjuggu í húsinu á móti henni (þar sem Kaffi Loki er núna) og eyddi ég miklum tíma nálægt kirkjunni þegar ég var yngri.

Við tókum daginn snemma bæði tvö, en við ákváðum að vera í sitthvoru lagi nóttina fyrir brúðkaup. Hann heima hjá okkur með mömmu sinni og Fannari og ég heima hjá foreldrum mínum.

Ég vaknaði óvenju snemma (spenningur reikna ég með), en undirbúningurinn allur var mjög rólegur og yfirvegaður, hár og förðun var heima og þurfti ég því ekkert að flakka um bæinn þann morguninn sem var rosalega notalegt.

Halldór hafði sig til heima í Njarðvík og fór svo með alla fjölskylduna sína að borða á Kaffi Loka áður en hann mætti til kirkju.

Þegar minn undirbúningur var hafinn mætti systir mín og systir tengdamömmu til mín til að hjálpa mér að hafa mig til og vera með mér þar til að ég þurfti að leggja af stað.

Athöfnin hófst stundvíslega kl. 15:00 og var það Séra Sigurður Arnarson sem gaf okkur saman, og fær hann fær mikið hrós fyrir athöfnina. Hann er léttur, skemmtilegur og með yndislega nærveru.

Eftir athöfnina brunuðum við beint í myndatöku í Hellisgerði í Hafnarfirði. Við tókum okkur smá tíma í myndatökuna en mættum til veislunnar um kl 17:30, en á meðan við vorum í myndatökunni mættu gestirnir okkar í salinn og gæddu sér makkarónum, jarðarberjum og kókostoppum sem þeir gátu svo skolað niður með freyðivíni eða eplasíder meðan þeir biðu eftir okkur.

Borðhald hófst fljótlega eftir að við mættum og svo strax af loknu borðhaldi byrjaði partýið sem stóð eitthvað fram eftir nóttu.

 

Söngur í kirkju:

Hún Guðrún Árný söng fyrir okkur í athöfninni. Hún er einstaklega mikill fagmaður og snillingur. Við fengum að kíkja í heimsókn til hennar rétt um mánuði fyrir stóra daginn þar sem að hún spilaði og gaf okkur tóndæmi á lögunum sem við vorum að spá í. Hún er mjög skipulögð og var með allt sitt upp á tíu. Lögin sem við vorum með voru:

Innspil – Brúðarmarsinn á píanó

Dreymir (sem er lagið okkar)

Ást

Undir þínum áhrifum

Want to grow old with you (úr The Wedding Singer)

Útspil – Signed Sealed Delivered spilað af mp3

 

 

Maturinn

Við lögðum mikið upp úr að hafa góðan mat fyrir gestina. Í forrétt höfðum við hlaðborð sem mín fjölskylda sá aðallega um en á því voru reyktur urriði, grafinn lax, grafið lamb, grafið nautakjöt, litlar kjötbollur í súrsætri sósu og kjúklingspjót.

Bróðir hans Halldórs er kokkur og sá hann og hans fylgdarlið alfarið um aðalréttinn fyrir okkur. Í aðalrétt var dúnmjúkt grillað lamb með allskonar dýrindis meðlæti og sósum.

Í eftirrétt vorum við með brúðartertu og eftirréttarhlaðborð, en þar mátti finna t.d. súkkaðimús, konfektmola o.fl.

Okkur langaði að hafa miðnæstursnarl fyrir gestina og varð kjötsúpa fyrir valinu. Þar sem að ég vinn hjá Skólamat þá fékk ég kokkana þar um að græja súpuna fyrir okkur og sló hún svo sannarlega í gegn.

 

 

Brúðartertan

Brúðartertuna gerði Erla systir hennar mömmu og vá þvílíka dásemdin sem hún var. Erla frænka bakar bestu súkkulaðiköku í heimi og langaði mig mjög mikið að hafa þannig köku sem brúðartertu. Erla er einnig mjög fær í kökuskreytingum og þykir okkur afar vænt um hvað hún var til í svona stórt verkefni fyrir okkur og útkoman var þessi æðislega fallega kaka.

 

Prentað efni

Ég lagði mikla áherslu á að allt prentað efni hefði gott heildarútlit og lagði mikla vinnu í það. Ég var lengi að finna út hvernig boðskortin ættu að vera, en þið getið fundið færslu um þau HÉR. Allt annað prentefni var svo í stíl við kortin og ég notaðist við sömu element og leturgerðir í öllu.

Ég tek að mér hönnun og útfærslu á boðskortum og prentefni fyrir brúðkaup, afmæli o.s.fr. Hægt er að hafa samband við mig í gegnum facebook-síðuna Dagatöl & kort 🙂

 

Ljósmyndari:

Gunnar Jónatansson tók myndirnar af okkur, hann fylgdi okkur allan daginn allt frá undirbúningi fram að fyrsta dansi, en hann tók einnig alla athöfnina og hluta af veislunni upp á vídeó. Þvílíkur fagmaður sem hann er, en hann var búinn að skila okkur vídeó samantekt af deginum áður en brúðkaupsdagurinn var liðinn (það vídeó má sjá hér neðst í færslunni). Hann er með einstaklega góða nærveru og veit upp á hár hvað hann er að gera, mæli hiklaust með honum ef þið eruð í brúðkaupshugleiðingum.

Ljósmyndir og myndbönd

 

 

Veislustjóri

Veislustjórinn okkar var hún Brynja Valdís. Við ákváðum að fá utanaðkomandi veislustjóra og sjáum við sko ekki eftir því. Þvílíka stemmningu og stuð bjó hún til, við hreinlega veltumst um af hlátri og allir tala um hversu mikill snillingur hún var. Hún las salinn svakalega vel og er með húmorinn á hárréttum stað. Hún létti rosalega á stressi hjá manni því hún var með allt sitt upp á hundrað, átti í samskiptum við alla aðilana sem komu að veislunni með einum eða öðrum hætti, kokka, þjóna, DJ o.fl. Mæli með að heyra í henni ef ykkur vantar frábæran veislustjóra!

www.brynjavaldis.com

 

DJ:

Þegar formlegri dagskrá var lokið þá fengum við DJ Atla Kanil til að þeyta skífum. Ég hafði heyrt gott af honum og hann sveik ekki. Hann náði nánast öllum út á dansgólfið með einstaklega skemmtilegri tónlist og náði að lesa salinn svakalega vel. Hann var rosalega þægilegur í samskiptum og svaraði öllum spurningum sem ég hafði undir eins. Mæli 110% með honum ef ykkur vantar DJ í ykkar veislu. Hægt er að hafa samband við hann í gegnum Facebook-síðuna DJ Atli Kanill

DJ Atli Kanill

 

Photobooth*

Okkur langaði að hafa photobooth í veislunni og tengja hann við gestabókina. Við leigðum box hjá Instamyndir, ásamt bakgrunn og prentun á myndum. Þessi photobooth skapaði svakalega stemmningu, ég held að allir gestirnir hafi tekið mynd af sér og finnst mér allar þessar myndir alveg ómetanlegar. Hann Elías hjá Instamyndum kom með kassann á föstudeginum og setti upp og náði svo í hann á sunnudeginum, en við vorum einnig komin með link á allar myndirnar á sunnudeginum. Ótrúlega góð og snögg þjónusta.

www.instamyndir.is

 

Skreytingar

Ég sá mest um skreytingar sjálf, en með góðri hjálp frá tengdamömmu og systir hennar. Mig langaði að hafa fallegar skreytingar sem myndu ekki kosta allt of mikið sem og gefa heildar mynd yfir allan salinn. Litirnir sem ég var að vinna með var rósargyltur, antíkbleikur og vínrauður. Ég pantaði mikið af Aliexpress, en ég ætla að gera Ali færslu fljótlega með link í allt sem ég pantaði fyrir brúðkaupið.

Húlahringir

Ég hafði séð nokkrar myndir af Pinterest með skreyttum húlahringjum og fékk ég tengdamömmu í lið með mér við að útfæra þessa hugmynd. Ég geri færslu fljótlega um hvernig þessi hugmynd var útfærð og unnin – fylgist með 😉

Búr

Á hlaðborðinu vorum við með fuglabúr í tveimur stærðum sem tengdamamma á heiðurinn af. Hún fékk hugmyndina og skreytti þau í stíl við þemað og setti svo skó (þar sem að ég er skófíkill) og rallýbíl (þar sem að Halldór er rallý-ökumaður) inn í búrin. Skemmtileg tenging við okkur og áhugamálin okkar

Myndir við gestabók

Mig langaði að hafa myndir af foreldrum okkar, ömmum og öfum einhvers staðar í salnum og ákvað ég að hafa þær við gestabókina okkar. Ég skreytti trékassa sem ég fékk í IKEA og festi myndir af þeim með litlum klemmum á band inn í kassana og setti svo nokkrar á trönur við hliðina á kössunum. Þetta kom mömmum okkar verulega á óvart og þótti þeim þetta rosalega fallegt.

 

 

 

Viðarplattar

Viðarplattana lét ég saga fyrir mig hjá skógræktinni, en ég gat gefið þeim upp u.þ.b. hversu stóra platta ég vildi og þeir græjuðu það fyrir mig á nokkrum dögum. Ég pússaði svo plattana aðeins til en sleppti því að lakka þá því ég vildi hafa þá í smá “rustik” útliti.

 

Krukkur

Ég var með allskonar krukkur á viðarplöttunum sem við spreyjuðum og skreyttum með glimmer. Í þessum krukkum hafði ég svo blóm og kerti í ásamt borðnúmerunum. 

Fatnaður:

Hún:

Kjóll – Coco Melody

Skór – Irregular choise

Slör – Brúðarkjólaleiga Katrínar

Skart – Hringur frá ömmu minni Stínu og armband frá Kristínu sys

Cape – Vintage, keyptur fyrir löngu í second hand búð

Ég kem með ítarlegri færslu um kjólinn minn á næstu dögun – fylgist með 🙂Hann:

Jakkaföt og skyrta – Herragarðurinn

Skór – Vagabond, Steinar Waage

Ermahnappar – Gamlir hnappar sem Villi afi hans átti

 

Við ákváðum að láta sérsauma föt á Halldór og fengum við snillingana hjá Herragarðinum í það verkefni. Við fundum það út að það er í raun ekki mikið dýrara að láta sérsauma föt en að kaupa þau tilbúinn. Við mættum til þeirra einn laugardaginn og fengum alveg ótrúlega flotta þjónustu frá þeim, tekin voru mál af Halldóri, við völdum svo efni, tölur, fóður og hvernig við vildum hafa jakkafötin og 6 vikum seinna voru fötin tilbúinn. Frábær þjónusta hjá þeim í Herragarðinum og þeir eiga sannarlega skilið allt hrós.


 

Fannar:

Buxur, skyrta, sixpensari og sokkar – Janie and Jack

Peysa – Handprjónuð af mömmu minni

Skór – Bisgaard

 

Fötin hans Fannars pantaði ég af Janie and Jack. Ég elska fötin þaðan en sú búð er með sérstaklega mikið af fallegum sparisettum með stuttbuxum á stráka. Mér finnst svakalega krúttlegt þegar litlir strákar eru í stuttbuxum og eru sparifötin hans Fannars eiginlega alltaf með stuttbuxum. Tveim vikum fyrir brúðkaup var ég svo að vesenast með yfirhöfn á hann. Ég ákvað að heyra í mömmu og athuga hvort hún hefði tíma í að prjóna eina peysu og sagði henni hvað ég væri að hugsa. Hún var ekki lengi að því og nokkrum dögum seinna var þessi fallega peysa klár!

 

 

Hringarnir

Halldór minn þekkir mig aðeins of vel en þegar hann bað mín þá var hann búinn að kaupa tvo hringa handa mér, einn trúlofunarhring og svo annan sem nýtast átti sem giftingarhringur. Þessa hringi keypti hann úti á Tenerife og finnst mér þessir hringar alveg einstaklega fallegir. Stuttu fyrir brúðkaup keyptum við svo hring fyrir hann, en hann vildi látlausan hvítagullshring og fengum við hann að sjálfsögðu í Meba í Kringlunni.

 

Hár*

Hann Hemmi snillingur hjá Modus hárstofu (harvorur.is) sá um hárið á mér og ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna. Ég vildi hafa hárið mjög látlaust, mikið af krullum, fléttur og svo stórt hárskraut og kom hárgreiðslan út alveg nákvæmlega eins og ég vildi hafa hana. Á næstu dögum ætla ég að setja inn ítarlegri færslu um hárið ásamt fleirum myndum 🙂

Neglur*

Futura neglur sáu um neglurnar mínar fyrir stóra daginn. Ég hef farið nokkrum sinnum til þeirra systra áður í neglur og svíkja þær aldrei. Neglurnar mínar voru fullkomnar á stóra deginum, en ég vildi hafa þær frekar langar, látlausar með einhverju smá skrauti. Mæli með að þið heyrið í þeim hjá Futura neglur ef ykkur langar í einstaklega fallegar, endingargóðar neglur.

 

 

Förðun

Lilja Þorvarðardóttir (Lilja Thor) sá um förðunina mína. Ég var í smá vandræðum með að finna einhvern til að farða mig því ég vissi ekki alveg hvert ég ætti að leita og þá allt í einu poppaði upp sú hugmynd hjá mér að prufa að heyra í Lilju og sjá hvort hún tæki svona farðanir að sér. Ég hef fylgt henni lengi á Instagram og vá þvílíkir hæfileikar sem hún hefur. Ég mætti í prufu til hennar og rúmri viku áður og var svakalega ánægð. Útkoman á brúðkaupsdeginum var svo fullkomnun, förðunin hélst allt kvöldið og þurfti ég aldrei að púðra yfir eða laga til þegar leið á daginn, það fannst mér alveg frábært. Mæli með að tékka á Lilju ef ykkur vantar förðun

Lilja Thor Makeup Artist

 

 

Blómin*

Brúðarvöndinn og barmblómin fékk ég hjá Möggubrá. Ég pantaði þau mjög tímalega og fór með nokkrar myndir til hennar til að sýna c.a. hvernig vönd mig langaði að hafa ásamt litaþemanu (þar komu myndir af Pinterest sterkt inn). Ég fór svo ca mánuði fyrir brúðkaup aftur í heimsókn til þess að yfirfara pöntunina mína og fara ítarlegra yfir hvernig ég sæi vöndinn fyrir mér. Mig langaði alltaf að hafa vínrauðan vönd, svolítið ílangan en samt frekar villtan og vöndurinn sem ég fékk var nánast nákvæmlega eins og ég hafði hugsað mér hann. Mig langaði að hafa ömmur mínar og afa með mér á brúðkaupsdaginn, en þau eru öll fallin frá, og þess vegna fannst mér falleg hugmynd að hafa litla ramma á vendinum mínum með myndum af þeim.

 

Bílinn

Halldór minn sá um bílinn og var hann mikið leyndarmál, sem mér fannst reyndar rosalega spennandi. Halldór var samt byrjaður að taka mig vel á taugum því ég var farin að ímynda mér að annaðhvort yrði brúðarbíllinn traktor eða eitthvað flykki sem ég þyrfti stiga til að komast upp í. Bílinn fékk hann lánaðan frá félaga sínum en þetta er Corvetta ‘81 árgangur. Mér fannst hann rosalega flottur og fengum við mikla athygli út á hann.

 

Dagurinn eftir

Við fórum heim til okkar eftir brúðkaup, en við ákváðum að vera ekki að fara á hótel þar sem að maður nýtir herbergið lítið (mætir seint og þarf að tékka út snemma) og ég sé svo ekki eftir því. Það var yndislegt að vakna nýgift og hafa litla hnoðrann okkar hjá sér. Við byrjuðum daginn á að ná í allt dótið sem við fengum að skilja eftir í geymslu í salnum og þegar það verk var búið buðum við okkar nánustu að kíkja í heimsókn heim, gæða sér á afgöngum og opna gjafirnar með þeim. Alveg yndisleg önnur veisla.

 

Dagurinn var vægast sagt fullkominn frá upphafi til enda og ég á örugglega aldrei eftir að geta lýst því hversu ótrúlega þakklát ég er fyrir alla hjálpina sem við fengum. TAKK allir!

 

 

 

*Stjörnumerk atriði voru unnin í samstarfi við fyrirtækin.

 

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *