Tannlæknaferð Draumabros!

Þá er komið að þessu!
Mig langar að byrja á því að segja að ef þið hafið einhverjar spurningar um verð, deyfingar eða aðrar upplýsingar sendiði þá Sigmari póst á facebook síðu Draumabros hér þar sem ég er ekki starfsmaður draumabross heldur bara ánægður kúnni!

Ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir þessa ferð. Ekki bara kom ég heim með yndislegt bros og reynslunni ríkari heldur kynntumst við frábæru fólki sem er algjörlega ómetanlegt. Sigmar og allir þeir sem vinna á tannlæknastofunni stóðu sig líka eins og hetjur að púsla þessu öllu saman og gera þessa ferð sem besta fyrir okkur – það hefur ekki verið auðvelt að fá allt þetta fólk í einu og samt tækluðu þau þetta eins og sannir fagmenn!

Hér kemur ferðasagan okkar ásamt myndum, upplýsingum um hvað ég borgaði – ég vill samt árétta að það eru allir mismunandi með mismunandi vandamál og þar af leiðandi er hvert tilfelli einstakt.

Fimmmtudagsnóttin/Föstudagur – ferðadagur:
Við Tryggvi þurftum að keyra lengra en flestir til að komast í þessa ferð en við keyrðum nóttina fyrir flug suður. Vð gátum ekki lagt af stað fyrr en um kvöldið því Hólmgeir var að sýna á kvöldvöku svo við fórum strax og því var lokið. Ferðin gekk mjög ljúft, autt alla leiðina og svo loksins þegar við komum suður fórum við beint til ömmu og afa og lögðum okkur í smá stund. Fösturdagurinn fór að mestu í snatt en ég náði þó að hitta nokkrar yndislegar Öskubuskur og fórum við saman í brunch á Egill Jacobsen sem var hreint út sagt geggjað og ég get alveg mælt með því að allir geri sér ferð þangað. Ég auðvitað fékk mér pönnukökur (með auka sírópi) og þetta var ótrúlega notarlegur staður. Ég náði að leggja mig smá seinni partinn enda frekar þreytt eftir ferðalagið og við vorum svo mætt uppá flugvöll klukkan 19.00 – mér finnst ofboðslega skrýtið að við vorum öll saman á flugvellinum og í flugvélinni en þekktumst þá ekkert. Flugið okkar til Katowice var 21.20 um kvöldið og gekk allt ótrúlega smurt. Þegar við lentum beið svo Sigmar eftir okkur með 2 taxa sem fóru með okkur á hótelin. Hópurinn gisti á 3 hótelum og við Tryggvi vorum á hóteli sem heitir Crown Piest Hótel. Við eðlilega fórum beint að sofa þegar við komum uppá hótel spennt yfir því að mæta til tannlæknis morguninn eftir! .. og á McDonalds en við fórum ekki nema 19 sinnum á McDonalds í ferðinni .. sem var ekki nema 6 heilir dagar.

Laugardagurinn – Við vorum mætt í morgunmat klukkan 9 og hallelujah það var meiraðsegja hægt að fá Cocoapuffs! Það áttu allir að mæta uppá tannlæknastofu klukkan 10 til að fara í skoðun og láta taka röntgen og myndir af tönnunum áður en viðtölin við sérfræðing voru en sérfræðingurinn fór í gegnum allt sem þurfti að gera áður en það var búið til verðtilboð. Þegar maður mætti fyrst tók hún elsku Anna á móti okkur með brosi, kaffi og nasli fyrir okkur meðan við þurftum að bíða. Verðtiboðið sem ég fékk hljóðaði uppá 5900 evrur rúmlega enda hellingur sem þurfti að gera og tennurnar mínar í miklu verra ástandi en ég gat ímyndað mér. Þetta var töluvert hærra en við bjuggumst við og gátum við eðlilega ekki lagt fram svona mikinn pening í einu og sérfræðingurinn skildi það fullkomlega og bjó til annað plan á no time! Það plan er í 2 pörtum og hentaði mér mun betur og eftir að ég fór í tannhreinsunina löbbuðum við ótrúlega glöð út. Tannhreinsunin var ótrúleg, bara að sjá tennurnar ekki með neinum tannstein eða neinu í fyrsta skipti í langann tíma fannst mér magnað, þær urðu svo miklu hvítari og sléttari að ég var í smá sjokki yfir því hvað tennurnar mínar voru skítugar. Ég borgaði ekkert þennann daginn en við ákváðum að ég myndi bara borga fyrir tannhreinsunina þegar ég kæmi næst í tíma til þeirra.

Þegar tannlæknabrasið var búið þann daginn tók bara við að skoða umhverfið, kíkja í mollið sem var næst okkur og auðvitað – McDonalds! Það er “lítið” moll (samkvæmt móttöku dömunni á Piast hótelinu) í göngufæri við tannlæknastofuna en það heitir Galeria Bronowice, og ég get sagt ykkur það að það er bara ekkert svo lítið moll, það tók okkur heila eilífð að komast í gegnum það!

Sunnudagurinn – Ég svaf TIL TVÖ. TVÖ!! Þegar það eru engin börn til að vekja mig þá bara sef ég og ég hefði klárlega getað sofið lengur. Dagurinn fór aðallega í afslöppun þar sem ég var í fríi frá tannlækninum. Um kvöldið áttum við bókað borð klukkan 19.00 á stað sem heitir CK Browar. Þetta var yndislegt kvöld með góðum mat og hópurinn þéttist ekkert smá mikið saman á því að eyða kvöldinu svona saman. Ég fékk mér eina bestu rjómalögðu sveppasúpu sem ég hef smakkað en hún var borin fram í brauðskál, Tryggvi fékk sér svo kjötplatta með endalaust af osti yfir og hann hugsar ennþá um hann og hálf slefar á meðan.

Mánudagurinn – Ég var aftur í fríi en við Tryggvi áttum pantaðann tíma í tattú á Think Ink stofu niðrí bæ, þið getið skoðað facebook síðuna þeirra hérna. Við vorum mætt klukkan 11 um morguninn tilbúin að fá okkur tattú sem við vorum búin að plana í þónokkurn tíma. Ég fékk mér svo óvænt annað tattú en verðin á þessum tattúum var bara eitthvað grín. Tryggva tattú sem voru 2 kostuðu 500zl og mín 3 tattú kostuðu 700zl en það samsvarar um 39.000kr . Við fengum svo rúmlega klukkutíma pásu til að fara og fá okkur að borða og rákumst þá á Barbikan virkið en það er síðan á 13 öld. Mögnuð sjón og þaðan getur maður labbað inní “Old Town” en þar borðuðum við – já þið giskuðuð á það, McDonalds! Við kláruðum svo tattúin um kvöldið og vorum ekki komin uppá hótel fyrr en að ganga 11 um kvöldið.

Þriðjudagurinn – Úff, þetta var stóri tannlæknadagurinn inn en ég átti tíma frá 8.40 til 17.00 um daginn. Þennann dag var gert flest sem þurfti að gera, nánast allar fyllingar settar í og rótarfyllt. Ég hef aldrei verið jafn fegin að þau spara ekkert deyfingarnar og þau voru ofboðslega tillitssöm og spurðu mig reglulega hvort það væri ekki allt í lagi, hvort ég þyrfti pásur og annað. Ég fékk auðvitað pásur á milli sérfræðinga en mig minnir að 3 mismunandi læknar hafi unnið í tönnunum á mér þennan daginn. Rótarfyllingin var reyndar versta upplifun sem ég hef nokkurntímann lent í! Það var ekkert þeim að kenna, ég hef bara aldrei farið í rótarfyllingu og það þurfti hálfpartinn að spenna munninn á mér upp því ég var orðin svo þreytt í kjálkanum, endaði á að fá smá kvíðakast og skæla þarna í stólnum meðan þau voru að klára þetta en þau mega eiga það að þau gerðu þetta eins fljótt og þau mögulega gátu.
Þegar ég var loksins búin og skoðaði uppí munninn á mér fór ég í hálfgert lost – ég var í fyrsta skipti í mörg ár að sjá tennurnar á mér eins og tennur líta út, ekki með neinum holum, framtennurnar jafn langar. Það var gullfallegt og ég gat ekki trúað þessu. .

Fyrir þennann dag borguðum við 1498 evrur sem er um 211 þúsund og var það fyrir allt sem var gert þann daginn og tannhreinsunin síðan á laugardaginn.

Miðvikudagurinn – Ég var aftur í fríi, guð hvað ég var glöð að vera alltaf í fríi inná milli en ég var svo þreytt í munninum eftir allt þetta áreiti. Við Tryggvi ákváðum að kíkja í stóra mollið fyrst við höfðum allann daginn en það heitir Galeria Krakowska. Þetta er svo sjúklega stórt að við hefðum líklega þurft 3 heila daga til að komast í gegnum það allt saman. Við náðum samt að versla smá og kaupa jólagjafir handa krökkunum en það var líklega það eina sem við ákváðum að við ætluðum að kaupa þarna úti, annars keyptum við alls ekkert mikið og vorum með lang minnstan farangur af öllum í hópnum okkar.. eh. Við ætluðum líka að skoða aðeins borgina en það kom svo sjúklega mikil rigning að við fórum bara aftur uppá hótel, skelltum í smá fótamaska og McDonalds uppí rúmi – ótrúlega endurnærandi og gott! Það skiptir líka ótrúlega miklu máli þó maður sé í útlöndum að hvíla sig smá og eftir allt labbið síðustu daga var þetta nauðsynlegt. Nauðsynlegt að taka það fram að ég labbaði inní eina af þessum frægu Sephora búðum í fyrsta skipti og varð fyrir vonbrigðum, fannst hún ekkert spennandi og labbaði bara út með 1 eyeliner og fótamaska.

Fimmmtudagurinn – Ég átti tíma hjá tannlækninum klukkan 10 en þá var gert við aðeins fleiri tennur og tannsteinninn hreinsaður undan tannholdinu, frekar óþæginlegt og 10/10 mæli með að fólk taki með sér heyrnatól til að geta bara hlustað á tónlist. Ég lenti reyndar nokkrum sinnum í því að hálf sofna í stólnum sem segir allt sem segja þarf um hversu þægileg sum skiptin voru!

Fyrir þennann dag borgaði ég 408 evrur sem er um 57.000 krónur.

Þegar tannlæknatíminn þennann daginn var búinn fórum við Tryggvi með leigubíl sem Sigmar pantaði í Saltnámurnar. Leigubílaferðin tók um 40 mínútur og gott tækifæri til að sjá umhverfið. Þetta var einstök upplifun, að fara 135m undir yfirborðið og sjá þetta allt saman. Allir skúlptúrar voru skornir út í saltstein og meiraðsegja gólfið var úr saltstein. Maður þarf að labba niður 54 hæðir til að komast á levelið þar sem túrinn byrjar en sem betur fer fer maður með lyftu upp aftur (minnsta lyfta í heimi og það tekur ekki nema 40sek að fara upp aftur – á eftir að fá martraðir það sem eftir er held ég). Við vorum alveg búin í löppunum þegar þetta kláraðist en ákváðum samt að láta leigubílinn skutla okkur niður í bæ til að finna tattú stofu þar sem Tryggvi gæti fengið sér gat í nefið! Hetjan mín, er að segja ykkur það.

Þegar við komum á hótelið aftur hittust allir niðrá barnum á Piast hótelinu, drukku, spjölluðu og hlóu – þetta var frábær leið til að klára ferðina.

Föstudagurinn – Þá var komið að heimferð. Það áttu allir tíma í síðustu skoðun þennann morguninn en þau á tannlæknastofunni vilja auðvitað hafa allt tipptopp áður en maður fer heim. Hjá mér var klárað að laga jaxlinn sem var rótarfylltur, tennurnar skoðaðar og svo teknar eftir myndir.

Fyrir þennan dag borgaði ég 249 evrur sem er 35.000kr rúmlega.

Taxinn var svo klár klukkan 13.00 til að fara með okkur á flugvölllinn en þar sem það var frekar mikil umferð tók ferðin næstum 2 tíma. Við áttum flug klukkan 17.05 og lentum heima á Íslandi um 20.00 sem okkur fannst geggjað – við áttum náttúrulega eftir að keyra heim. En nei, þar sem það var svo mikill vindur þurftum við að bíða í hálftíma inní flugvélinni þar sem það var ekki hægt að opna hana. Loksins þegar við komumst svo útúr vélinni tók við bið til tæplega miðnættis eftir farangrinum útaf veðri! Maður var orðinn svolítið þreyttur og pirraður og finnst mér ótrúlegt að það er ekki boðið uppá neitt að drekka eða borða fyrst maður þarf að bíða svona og í fríhöfninni er náttúrulega bara hægt að kaupa nammi sem kemur manni ekki langt. En, við lögðum svo beint af stað norður þegar við komumst útaf flugvellinum og vorum komin til tengdó um hálf 6 á laugardagsmorgninum.

Þó þessi ferð hafi verið fullkomin og ótrúlega notarlegt að komast smá í burtu er samt alltaf best að koma aftur heim. Ég get samt ekki beðið eftir að fara aftur, já þið lásuð rétt. Ég hlakka til að fara aftur til tannlæknis! Það þarf nefnilega ekki að vera kvíðavaldandi og óþægilegt að fara til tannlæknis og þau hjá Magnadent sýna manni það alveg. Sigmar á líka hrós skilið fyrir allt sem hann gerði en hann var til staðar fyrir hverja einustu manneskju sem var í hópnum, hann sá til þess að allir höfðu allt sem þeir þurftu.

Hér er svo listi yfir það sem ég þurfti að láta gera við í munninum á mér en heildar kostnaðurinn á endanum var um 303.000kr.


Það sem er innifalið inní ferðinni er skoðunin uppá tannlæknastofunni og svo ferðin frá flugvellinum uppá hótel og aftur til baka.

Og hér eru svo fyrir og eftir myndir og röntgen myndin verður að fá að fylgja með – eingöngu því mér finnst hún svo sjúklega töff.


Sigmar, Anna og allir starfsmenn tannlæknastofunnar – TAKK! Get ekki þakkað nógu mikið fyrir mig og ég á eftir að brosa hringinn framvegis.

Facebook Comments
Share: