Minn síðasti pistill árið 2018

Ég hef alltaf skrifað smá áramótapistla. Í flestum þeirra hef ég farið yfir það sem ég hefði mátt gera betur, í hverju mér mistókst eða hvernig ég brást börnunum mínum, vinum og ættingjum. Ég veit ekki alveg afhverju ég hef alltaf einblínt á það neikvæða sem hefur gerst, en þannig er ég bara oftast. Svo hef ég endað á því að lofa betrun og öllu fögru sem ég hef svo ekki staðið við nema að litlum hluta.

Þessi pistill verður öðruvísi. Fyrst langar mig að þakka fjölskyldunni minni fyrir alla hjálpina á árinu, alla ástina og öll faðmlögin. Ef ekki væri fyrir ykkur væri ég ekki hér. Það er hreinlega svo einfalt. Mig langar að þakka vinum mínum fyrir að alltaf hafa tíma til að hlusta á mig, hvort sem það er um hvað mér líður illa, hvernig dagurinn minn var eða hvað ég er spennt að fá Tryggva heim. Samstarfsmenn mínir og yfirmaður eiga líka hrós skilið fyrir allann þann skilning sem ég hef fengið síðasta hálfa árið. Það er magnað hvað maður á góða að þegar reynir á og ég verð ævinlega þakklát fyrir það.

Ég labba inní nýtt ár með hjarta fullt af þakklæti og hreina samvisku. Ég er hætt að velta mér uppúr fortíðinni og ætla að sleppa takinu af gremju og reiði yfir því sem aðrir hafa gert, því þegar allt kemur til alls ræð ég ekki hvað aðrir gera, en ég ræð mínum viðbrögðum. Fyrirgefning er besta leiðin til að halda áfram og ég hef ákveðið að fyrirgefa öllum þeim sem hafa brotið á mér, hversu stórt eða smátt það var. Ég bið líka þá sem ég hef breytt rangt gagnvart um að fyrirgefa mér en ég vill eyða framtíðinni í að verða betri manneskja, verða skilningsríkari og glaðari gagnvart heiminum. Fólk auðvitað ræður hvort það fyrirgefur mér eða ekki – en vitiði bara það að þetta kemur frá einlagasta staðnum í hjartanu mínu og ég vona svo innilega að þið takið mark á því.

Takk fyrir magnað ár allir þeir sem tóku sér tíma til að lesa pistlana mína, deila þeim og fylgjast með okkur fjölskyldunni á samfélagsmiðlum en þetta verður minn síðasti pistill þar til á nýju ári en ég ætla að njóta restarinnar af desember í faðmi fjölskyldunnar og langt í burtu frá Candy Crush.

Gleðileg jól allir og ég vona að þið eigið frábær jól umvafin ástvinum ykkar.
Sjáumst árið 2019!

Myndirnar tók elsku Halldóra Kristín okkar eins og venjulega en við elskum hana!

Facebook Comments
Share: