HELLISBÚINN – Nú í Ægisgarði

 

 

Þessi færsla er ekki kostuð, en hún er unnin í samstarfi við Jóel Sæmundsson.

Ég man þegar ég sá Hellisbúann í fyrsta skipti, hann kom út 99′ ef ég man rétt og var það Bjarni Haukur sem túlkaði hann þá. Ætli ég hafi ekki verið 10 ára og mér fannst þetta með því fyndara sem ég hafði séð. Atriðið þar sem hann talar um að karlmenn hrósi hvor öðrum ekki eins og konur – ég hlæ ennþá við tilhugsunina. Síðan eru liðin þó nokkuð mörg ár og hef ég ekki séð hann síðan þó ég hafi oft hugsað um það hvað þetta var fyndið leikrit og hvað ég þyrfti að sjá það aftur. Svo heppilega vildi til að í fyrra var byrjað að sýna Hellisbúann í nýrri og nútímalegri útgáfu! Enn heppilegra er það að Hellisbúinn er í þetta skipti túlkaður af engum öðrum en Jóel Sæmundsson undir leikstjórn Emmu Peirson, en hann Jóel er án efa einn besti og fallegasti leikari nútímans (hlutlaust mat samt, hann er bara bróðir mömmu og ég vill halda áfram að fá jólapakka).

Síðan sýningar hófust aftur hefur Hellisbúinn verið sýndur í hinum ýmsu þorpum og bæjum landsins – meðal annars hér í Mývatnssveit en þar fékk ég tækifæri til að fara með fjölskyldunni og við hlógum útí hið óendanlega saman, líka á leiðinni heim! En ég gat ekki annað en fundið fyrir smá monti og stolti yfir því að elsku Jóel væri kominn í minn heimabæ að heilla alla uppúr skónum. Hellisbúinn fór svo út fyrir landsteinana en hann tók stutt stopp í Las Vegas  og fékk vægast sagt frábærar viðtökur.

Hellisbúinn hefur nú fundið sér nýtt og gott heimili í Ægisgarði, en Ægisgarður er þekktur fyrir ótrúlegt magn af guðaveigum og er “heimili íslenskrar brugghefðar og bjórsögu”. Gestum á sýningunni gefst þá tækifæri til að setjast niður í góðra vina hópi, og njóta sýningarinnar með drykk í hönd. Það eru sýningar alla fimmtudaga og hægt að kaupa miða hér og endilega kíkið á facebook síðu Hellisbúans hér.

Hér má lesa umsagnir frá tveim af okkur hjá Öskubusku sem kíktu á forsýninguna núna um daginn;

Ég er mikill aðdáandi gömlu sýningunnar með Bjarna Hauki og kann hana utan að. Fór heim eftir skóla og horfði á hana á VHS í örugglega heilt ár. Svo ég var nú alveg til í að fara en ekki með of miklar væntingar þar sem ég taldi sjálfa mig þokkalegan sérfræðing í efninu. En Jóel kom þessu glæsilega frá sér og ég gjörsamlega emjaði úr hlátri. Nokkur atriði hafa bæst við handritið til þess að færa okkur nær nútímanum (aðeins lengra en VHS) og eitt þeirra varð mitt uppáhalds í sýningunni en ég tengdi einstaklega vel við það – Ef þú ert annað hvort kona eða karl, jafnvel ef þú ert hvorugt já eða bæði þá er þessi sýning dásamleg skemmtun og ég ætla að giska á að hún sé sérstaklega skemmtileg afþreying fyrir pör ! – Takk fyrir mig Jóel” – Selma Margrét

Um daginn skellti ég mér á Hellisbúann og hef grínlaust ekki hlegið eins mikið í langan tíma. Ég var áður búin að sjá Hellisbúann þegar Jóhannes Haukur var með sýninguna. Ég hafði mjög gaman af þeirri sýningu en þessi sýning kom með svona ný fersk atriði. Það var margt þarna sem maður tengdi mikið við. Einnig fannst mér mjög skemmtileg tilbreyting að vera í brugghúsi að horfa á sýninguna. Allt öðruvísi stemning að sitja við borð með vinahóp en að sitja í röðum í sal. Það er óhætt að mæla með þessari sýningu fyrir alla!” – Eydís Sunna

Facebook Comments
Share: