Grasekkjulífið

Við Tryggvi höfum ekki verið saman lengi, það eru bara 4 ár síðan við kynntumst. En hann hefur verið á sjó helminginn af þessum tíma og hann hefur verið töluvert meira á sjó en heima hjá sér.

Það er ekki auðvelt að eiga mann á sjó, ég skal alveg segja ykkur það. Sama þó hann hafi bara verið á sjó í mánuð eða 30 ár þá er þetta ekki eitthvað sem venst – en samt venst þetta ef þið skiljið mig? En hann gerir þetta fyrir okkur, til að sjá til þess að okkur vanti aldrei neitt og ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir það – hann hefur ýmislegu fórnað fyrir okkur. Þar með talið höndunum á sér en hann hefur þurft að fara í aðgerð á báðum höndum síðan hann byrjaði á sjó.
Það er vissulega mikið álag sem fylgir því að vera sjómannskona, vera sú sem er alltaf til staðar, hugsa um börnin, heimilið, jafnvel vera í vinnu líka en samt reyna að halda þessum smá parti af þér sem þú ert. Það heppnast ekki alltaf – ég er eitt besta dæmið um það. Skulum bara segja að ef ég væri trúður væri mitt aðal atriði ekki að halda mörgum boltum á lofti. Maður einangrast oft svo mikið og ég skal vera sú fyrsta sem segir það að það kemur vissulega í ljós hverjir eru vinir þínir á svoleiðis stundum. Hverjir það eru sem gá hvernig maður hefur það og hvernig maður er að höndla þetta, og ekki bara á samfélagsmiðlum.

En þetta er líka erfitt fyrir hann, fyrir utan það hvað sjómenn eru í líkamlega krefjandi vinnu er þetta andlega erfitt líka. Vera í burtu frá fjölskyldu og ástvinum, lokður inní stáldalli með sömu mönnunum, takmarkaðar tómstundir og lítið annað gert en vinna og reyna að sofa inn á milli – í pínulitilli koju. Þeir missa af svo mörgu í lífinu, fyrstu skrefum barnanna sinna, afmælum, stundum jafnvel fæðingum, pabbakaffi á leikskólanum og bara því að leggjast niður á kvöldin og lesa stutta bók fyrir ormana. Einu sinni þegar Tryggvi var útá sjó spurði ég hann hvernig það væri að hlusta á börnin sín vaxa úr grasi. Ég ætlaði ekki að orða þetta beint svona, en þegar þetta kom út úr munninum á mér skall það á okkur báðum hversu miklu hann missir af. Þetta eru mánuðir og ár sem koma aldrei aftur.

Vissulega hafa tímarnir breyst. Þegar ég var að alast upp var pabbi minn á sjó. Þá gat mamma ekkert talað við hann nema örstutt, einu sinni og einu sinni og þá var það þannig að allir í flotanum heyrðu hvað þeirra fór á milli. Við höfum þó gjöf tækninnar og getum oftast talað saman á facebook sem er skömminni skárra og ég er ótrúlega þakklát fyrir það. En það kemur þó oft fyrir að það er netleysi og við getum ekki talað saman. Þá taka áhyggjurnar oft yfir hjá kvíðasjúklingnum mér, vitandi að hann er á hafi úti og allt getur komið fyrir. Því þetta er, án efa eitt hættulegasta starf sem hægt er að velja sér. Svo ég tali nú ekki um þegar það er vont veður og bræla, þá þarf ég að gera mitt besta til að leiða hugann að öðru.

Svo er eitt annað, sem mér finnst ekki hafa komið nægilega vel fram neinstaðar. En það er þessi rútína. Tryggvi er eins og áður kom fram meira á sjó en heima, svo þegar hann er á sjó komum við krakkarnir okkar í okkar góðu rútínu og treystum rosalega mikið á hana og börnin læra inná hana. Þegar hann kemur loksins heim svo raskast þessi rútína alveg ofboðslega, það er eiginlega eins og við séum öll komin í frí, líka og kannski sérstaklega fyrir mig. En það er ekki þannig – lífið okkar heldur áfram en samt leyfum við okkur alltaf meira þegar hann er í fríi og röskum þessari rútínu. Það er ekki ætlunin, en það gerist.

En það er ekki allt slæmt við þetta. Þó við gætum verið saman allan daginn alla daga (og vorum á tímapunkti í sambandinu) þá gerir þetta magnaða hluti fyrir hjónabandið. 4 árum seinna, og ég verð ennþá smá stressuð áður en hann kemur heim. Það helst allt einhvern veginn spennandi og ferskt og allir smámunir sem maður venjulega þrætir yfir – þeir hætta að skipta máli. Maður kann meira að meta tímann sem maður á saman. Þó það sé bara rólegt þriðjudagskvöld þar sem við sitjum á sófanum og höngum í símanum og spjöllum, þá er það fullkomið. Því við fáum að vera saman.

Facebook Comments
Share: