Endómetríósa: Sársauki, skilningsleysi og ófrjósemi

Þegar ég var unglingur byrjaði ég á blæðingum eins og allar hinar stelpurnar, ætli ég hafi ekki verið í kringum fjórtán ára. Þarna breyttist heimurinn, ég var orðin fullorðin og gat nú farið að tala um dömubindi, túrtappa og kynlíf.

En reynsla mín af þessu öllu saman var ekki sú sama og hjá öðrum stelpum sem ég umgekkst. Ég kveið þessum mánaðarlega tíma svo mikið þar sem að tveir til fjórir sólarhringar fóru í að liggja á baðherbergisgólfinu ælandi af sársauka. Það leið yfir mig nánast í hvert einasta skipti sem ég var á blæðingum og ég lá skjálfandi og kófsveitt þar til þessu var lokið.

Woman Suffering From Stomach Ache

Ég var ekki bara með verki þegar ég var á blæðingum heldur hafði ég daglega verki í leginu en þeir voru svo litlir miðað við hina verkina að ég taldi þetta eðlilegt ástand.

Sársaukinn var svo gríðarlegur þegar ég var á blæðingum að ég tók upp á því að taka íbúfen verkjalyf á hverjum einasta degi því ég vissi aldrei hvenær ég myndi byrja og sársaukinn versna. Ég tók tvær töflur tvisvar til fjórum sinnum á dag í mjög langan tíma eða alveg þar til maginn á mér gat ekki meir og ég fór að kasta töflunum upp.

pilla

Þegar ég var svo orðin sautján ára fór ég til kvennsjúkdómalæknis sem sagði mér að verkirnir væru eðlilegir og allar stelpur fengju svona verki. Ég ætti bara að bíta á jaxlinn og taka verkjatöflu. Hún skrifaði upp á fyrir mig getnaðarvarnapilluna sem ég byrjaði strax að taka.

 

Þarna urðu verkirnir bærilegri og mér leið örlítið betur því hormónarnir í pillunni höfðu einhver áhrif á verkina. Ég var samt ennþá sárþjáð í hvert einasta skipti sem rósa frænka mætti og ekki nóg með það þá fóru hormónarnir svo illa í mig að ég á í erfiðleikum með að muna eftir unglingsárunum mínum. Þau eru í hálfgerðri þoku vegna verkja og hormónarugls í líkamanum.

Það var engin sem skildi hvað ég var að ganga í gegnum og skilningsleysið var algjört. Ég man sérstaklega eftir einu tilfelli þar sem ég var í vinnunni og hafði þurft að fara einu sinni til þess að kasta upp vegna verkja og var svo í svitabaði að reyna að sinna starfinu þegar ég bað yfirmann minn um að fá að fara heim þar sem ég gæti bara einfaldlega ekki staðið vegna verkja. Mér var hleypt heim á þeim forsendum að ég skyldi aldrei aftur vera „veik“ út af túrverkjum. Auðvitað vissi yfirmaður minn ekki neitt um minn sjúkdóm þar sem ég vissi heldur ekki neitt og því héldu allir að ég væri bara svona mikill „aumingi“ að geta ekki harkað þessa smá verki af mér.

Það er svo ekki fyrr en ég og maðurinn minn erum búin að reyna að verða ólétt í dágóðan tíma þegar okkur fer að gruna að það sé nú mögulega ekki allt í lagi. Við tekur langt ferli þar sem við þurftum bæði að mæta í skoðanir og kemur þar í ljós að allt sé í himnalagi hjá manninum mínum. Læknirinn minn vill senda mig í aðgerð til þess að kanna möguleikann á endómetríósu eða lokuðum eggjastokkum. Vikurnar liðu á meðan við bíðum eftir aðgerðardeginum og þegar par er að reyna að eignast barn þá eru klukkutímarnir eins og mánuðir! Sem betur fer vorum við að skipuleggja brúðkaupið okkar á sama tíma og giftum okkur á meðan á biðinni stóð svo það hjálpaði tímanum að líða örlítið hraðar.

mg_3652_edit

Loksins kemur svo að aðgerðardeginum og það síðasta sem læknirinn segir við mig áður en mér er rúllað í svæfingu er að hún sé alveg viss um að ég sé ekki með endómetríósu því ég sé svo ólíklegur „kandidat“ í það.

Ég vakna svo stuttu síðar og sé manninn minn og lækni standa og ræða málin. Þarna er mér greint að ég sé með endómetríósu sem sé út um allt leg og erfitt hafi verið að fjarlægja það þar sem það voru svo margir litlir blettir.

Ég sit eftir sem eitt spurningarmerki og hafði ekki hugmynd um hvað þetta þýddi fyrir mig eða möguleika okkar á barneignum. Við fáum svo frekari upplýsingar síðar um daginn.

Á síðu Endómetríósu eru þessar upplýsingar um sjúkdóminn:

„Legslímuflakk eða endómetríósa (e. endometriosis) er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu. Undir venjulegur kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Frumurnar sem finnast utan legsins setjast undir yfirborðsþekju á líffærunum og mynda þar legslímuflakk sem síðan veldur bólgum og blöðrumyndun. Frumurnar í legslímuflakki bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkt og þær gera á sínum eðlilega stað í leginu og blæðingar eiga sér stað. Í staðinn fyrir að fara út úr líkamanum kemst blóðið ekki í burtu og myndast oft blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar innan kviðarholsins þegar legslímuflakkið tengir saman aðra vefi. Þetta getur valdið sársauka.“

Endómetríósa getur orsakað ófrjósemi og það var það sem var í gangi hjá mér. Aðgerðin fer þannig fram að reynt er að brenna í burtu þær frumur sem eru ekki á réttum stað en það er því miður ekki alltaf hægt að ná öllu. Svo þegar búið er að framkvæma aðgerðina þá byrjar líkaminn aftur að safna óæskilegum frumum og þetta byrjar því allt aftur upp á nýtt, allir verkir og allt saman.

Okkur hafði verið greint frá því að það væru eiginlega engar líkur á því að við gætum orðið ólétt sjálf og að við þyrftum aðstoð læknisvísindanna ef við ætluðum að eignast börn. Við höfðum því samband við Art Medica sem er því miður eina fyrirtækið á Íslandi sem aðstoðar fólk í þessum vanda, en þetta er bæði erfitt ferli og svakalega dýrt. Það er lítil sem engin aðstoð fyrir fólk í þessari stöðu þrátt fyrir það að vera ófrjór sé í raun og veru fæðingargalli og ríkið ætti að standa við bakið á fólki.

bumbumyndir1-2
Við vorum ein af þeim heppnu. Þegar við erum að bíða eftir því að komast að hjá Art þá verð ég ólétt af stráknum okkar. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég sá jákvæða prófið! Þvílík gleði og hamingja sem eitt prik gat veitt okkur.

En þessi reynsla var okkur erfið og að ganga í gegnum tíma þar sem við vorum óviss um það hvort, hvenær eða hvernig við gætum eignast barn var það versta sem ég hef þurft að takast á við.

Ég mæli með því við hverja konu að leita sér aðstoðar ef það er eitthvað sem henni finnst ekki vera í lagi varðandi sinn líkama. Ég hefði viljað fá aðstoð og svör mikið fyrr en það hefði hjálpað mér helling að vita að þetta væri ekki eðlilegt ástand og ég væri ekki ein.

Endilega skoðið heimasíðu Endómetríósu en þar eru greinagóðar útskýringar á öllu varðandi þennan sjúkdóm sem og helstu einkenni hans.

Þangað til næst,

anita

 

Facebook Comments
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *