OceanHero umsögn

Í byrjun nóvember skrifaði ég færslu um nýju íþróttalínu BLACKGLACIER sem ég var ótrúlega spennt fyrir. OceanHero línan er ekki einungis framleidd á sanngjarnan hátt (þið getið séð helstu vottanir hér) heldur er efnið einnig umhverfisvænt en það er búið til úr endurunnum fiskinetum og textílúrgangi.

Ég fékk sett til þess að prófa og verð ég að segja að ég er hreinlega mjög ánægð með það. Ég vil nefna að eins og alltaf þegar ég skrifa um vörur þá geri ég það af einlægni og hreinskilni og fjalla ekki um vörur sem stangast á við mín gildi.

Ég hef notað settið mikið síðan ég fékk það í hendurnar, bæði heima í kósy, á röltinu og á æfingum. OceanHero efnið er létt, glansandi og hrindir vel frá sér svita.

Ég æfi Crossfit sem býður upp á mjög fjölbreyttar æfingar, sama wod-ið (æfing dagsins) getur boðið upp á lyftingar, upphýfingarbörpísa (burpees) og allskonar sprell. Oft eru æfingarnar settar upp þannig að maður er hlaupandi á milli setta, jafnvel á skráðum tíma og er þá fátt meira pirrandi en að þurfa að eyða dýrmætum tíma í að laga fötin sín.

Ég hef ekki þurft að laga buxurnar eða toppinn á svona æfingum sem ég er mjög ánægð með. Buxurnar haldast vel uppi og halda nokkuð vel við líkamann. Stuðningurinn er ekki gífurlegur, en dugar mér þó, ég vil ekki að efnið sé of stíft. Efnið hentar vel í inni æfingar en ég myndi telja að það yrði full kalt að fara út að hlaupa í buxunum.

Buxurnar lýta almennt mjög vel út, mér finnst glansinn kostur en það gerir það að verkum að mér finnst ég aðeins fínni við síða boli eða peysur á röltinu. Eftir þónokkrar hnébeygjur fyrir framan spegla í mismunandi lýsingu tel ég mig nokkuð örugga í því að efnið sé ekki gegnsætt.

Ég er mikil hundamanneskja og á 3 hunda sem fara (mismikið) úr hárum. Límrúllan á fastan sess í anddyrinu svo við getum „rúllað“ okkur á leiðinni út. Mér finnst frábært við þetta efni að það FESTAST EKKI hundahár í því. Hallelúja. Ég get setið í sófanum með 3 hunda í klessu ofan á mér, dustað svo léttilega af buxunum og rokið út svo gott sem hundaháralaus.

Toppurinn er úr léttu og þunnu efni. Persónulega kýs ég yfirleitt toppa með þunnum púðum sem hægt er að taka úr en OceanHero toppurinn er þó mjög þægilegur á æfingu og stuðningurinn í börpísunum nægur. Ég nota brjóstahaldara í stærð 32DD ef einhver var að velta því fyrir sér.

Almennt finnst mér þetta sett vera vel þess virði að versla sér. Ég er virkilega glöð með að íslenskt fyrirtæki velji að fara þessa leið og fagna öllu auknu úrvali á landinu okkar. Það fylgir því góð tilfinning að versla vöru sem framleidd var á sanngjarnan hátt og bjó ekki til mikið auka rusl enda efnið búið til úr hráefnum sem þegar eru til staðar og flíkurnar koma í niðurbrjótanlegum pappakassa.

Þegar að fyrirtæki tikkar í öll þessi box þá er verðið oft eftir því. BLACKGLACIER verðleggur þó vörur sínar ekki hærra en helstu íþróttarisarnir sem gerir fleirum aðgengilegt að velja sanngjarnari og umhverfisvænni vöru.

Ég er mjög spennt að sjá hvað verður í boði í framtíðinni hjá BLACKGLACIER og mun fylgjast vel með.

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *